Valur tók á móti HK á Hlíðarenda í 3. umferð Pepsi Max-deildar karla í kvöld. Heimamenn unnu nauman sigur í markaleik.
Það var HK sem komst óvænt yfir í kvöld. Þá skoraði Stefan Alexander Ljubicic með skalla eftir frábæra fyrirgjöf Valgeirs Valgeirssonar, sem var loks í byrjunarliði HK í kvöld.
Patrick Pedersen jafnaði metin fyrir heimamenn aðeins fimm mínútum síðar. Hann fékk þá sendingu inn fyrir áður en hann tók snertingu framhjá markverði HK og setti boltann í netið.
Staðan í hálfleik var 1-1.
Gestirnir komu sterkir inn í seinni hálfleik en Valsarar tóku við sér þegar á hann leið. Næstu mörk létu bíða lengi eftir sér.
Þegar rúmar tíu mínútur lifðu leiks skoraði Christian Köhler sitt fyrsta mark fyrir Val með marki beint úr aukaspyrnu. Hinum megin jafnaði HK þó strax. Jón Arnar Barðdal kom knettinum þá í netið eftir fyrirgjöf.
Það stefndi í jafntefli þegar Almarr Ormarsson skoraði sigurmark heimamanna í uppbótartíma. Boltinn barst þá til hans eftir darraðadans inni á teig og hann setti boltann í netið. Lokatölur 3-2.
Valur er með 7 stig eftir fyrstu þrjár umferðir deildarinnar. HK er með 2 stig.