Mótmælendur hafa stöðvað liðsrútu Liverpool sem er á leið á Old Trafford fyrir stórleik liðsins gegn Manchester United í kvöld. Um frestaðan leik er að ræða en mótmælendur stöðvuðu leik þessara liða í byrjun mánaðar.
Stuðningsmenn Man Utd hafa undanfarið mótmælt Glazer-fjölskyldunni sem á félagið. Eigendurnir hafa lengi verið óvinsælir en þeir settu olíu á eldinn í síðasta mánuði þegar þeir tóku þátt í því að reyna að stofna nýja evrópska Ofurdeild. Mótmælin náðu hámarki þegar stuðningsmenn mótmæltu svo harðlega fyrir leik þessara liða sem átti að fara fram á dögunum að honum var frestað.
Nú er lið Liverpool á leið í frestaða leikinn með rútu en stuðninsmenn Man Utd hafa lokað fyrir aðgang rútunnar með því að leggja bílum sínum fyrir hana í hliðargötu. Þá er einnig talað um að þeir hafa hleypt lofti úr dekkjum rútunnar.
Leikurinn á sem stendur að fara fram klukkan 19:15. Það er þó spurning hvort mótmælendum takist aftur að hafa áhrif á leikinn.
Uppfært: Lögregla hefur skipað bílstjórum að færa bíla sína frá rútunni og er hún farin aftur af stað. Ekki er talið að leikmenn Liverpool séu um borð.
Liverpool coach has been blocked into a side street near team hotel #MUFC #LFC pic.twitter.com/BtVviwczpu
— Daniel Taylor (@DTathletic) May 13, 2021