Liverpool er enn vel inni í Meistaradeildarbaráttunni í ensku úrvalsdeildinni eftir sigur á Manchester United á Old Trafford í kvöld í stórleik.
Bruno Fernandes kom heimamönnum yfir á 10. mínútu. Hann fékk þá boltann innan teigs og skaut í Nat Phillips og í netið.
Diogo Jota jafnaði leikinn þegar um tíu mínútur lifðu fyrri hálfleiks. Honum tókst þá að stýra skoti Phillips í netið.
Roberto Firmino kom Liverpool yfir rétt fyrir leikhlé þegar hann skoraði með skalla. Staðan í hálfleik var 1-2 fyrir gestina.
Firmino skoraði þriðja mark Liverpool í upphafi seinni hálfleiks. Hann náði þá frákastinu eftir að skot Trent Alexander-Arnold var varið.
Marcus Rashford minnkaði muninn fyrir Man Utd um miðbik seinni hálfleiks eftir stoðsendingu frá Edinson Cavani.
Mohamed Salah gerði þó út um leikinn fyrir Liverpool í blálokin. Lokatölur 2-4.
Man Utd er í öðru sæti deildarinnar með 70 stig. Liverpool er með 60 stig í fimmta sæti, 4 stigum á eftir Chelsea í fjórða sætinu. Þá á Liverpool eftir að leika þrjá leiki á meðan Chelsea á aðeins tvo leiki eftir.