Aturelding hefur samið við spænska miðvörðinn Albert Serran og mun hann leika með liðinu í Lengjudeildinni í sumar. Albert er 36 ára gamall en hann á að baki öflugan feril. Albert ólst upp hjá Espanyol og spilaði með liðinu nokkra leiki í spænsku
úrvalsdeildinni áður en hann söðlaði um og gekk í raðir Swansea.
Þar spilaði Albert í þrjú ár og hjálpaði liðinu upp í ensku úrvalsdeildina árið 2011. Albert hefur síðan þá spilað í úrvalsdeildunum í Kýpur, Albaníu, Marokkó og Indlandi. Albert vann meðal annars Ofurdeildina í Indlandi með liði Bengaluru fyrir tveimur árum.
,,Ég er hæstánægður með að vera orðinn hluti af Aftureldingu og er mjög spenntur að byrja þetta nýja ævintýri. Ég vonast til að við getum náð sem bestum árangri saman sem lið,“ sagði Albert eftir að hafa skrifað undir.
Magnús Már Einarsson, þjálfari Aftureldingar sem leikur í Lengjudeildinni fagnar komu Albert. ,,Við höfum verið í leit að reyndum varnarmanni í talsverðan tíma og fögnum því að hafa náð að sannfæra Albert um að taka eitt ævintýri til viðbótar á ferli sínum. Albert hefur gríðarlega reynslu og mun geta miðlað henni og hjálpað samherjum sínum að verða ennþá betri. Við erum mjög ánægðir með að vera með breiðan og góðan leikmannahóp fyrir sumarið.“