Ástandið á Akureyri til knattspyrnuiðkunnar er slæmt nú þegar vorið er í gangi, ástandið er svo slæmt að KA getur ekki leikið heimaleiki sína í efstu deild í bænum. KA tekur í dag á móti Leikni í efstu deild karla og fer leikurinn fram á Dalvík.
Í mörg ár hafa forráðamenn KA barist fyrir því að fá bætta aðstöðu en hingað til talað fyrir tómum eyrum, ljóst er að félagið leikur ekki heimaleiki í bráð miðað við ástandið á Greifavellinum í dag.
Myndin hér að ofan var tekin í dag og birt í Facebook hópnum. Dr.Football leikmenn. „Greifavöllur ( Akureyrarvöllur ) Mynd tekin 11.5.2021 – það verða ekki margir leikir hérna á næstunni,“ skrifar Jóhann G Jóhannesson sem birtir myndina.
„Greifavöllurinn er ekki klár og Arnar Grétarsson sagði það í viðtali að ef hann fengi að ráða þá væru allir heimaleikir KA spilaðir á Dalvík. Hversu mikið diss er þetta á Akureyrarbæ? KA vill spila á Dalvík því Akureyri býður ekki upp á viðunandi aðstæður,“ sagði Elvar Geir Magnússon ritstjóri Fótbolta.net um málið á dögunum.