KA tók á móti Leikni Reykjavík í fyrsta leik 3. umferðar Pepsi Max-deildar karla í kvöld. Leikið var á Dalvík vegna slæmra vallaraðstæðna á Greifavellinum á Akureyri. ,,Heimamenn“ unnu virkilega öruggan sigur á nýliðinum.
Þegar stundarfjórðungur var liðinn fékk KA vítaspyrnu. Þá braut Bjarki Aðalsteinsson klaufalega á Steinþóri Frey Þorsteinssyni innan teigs. Hallgrímur Mar Steingrímsson steig á punktinn og skoraði af öryggi framhjá Guy Smit í marki Leiknis.
Heimamenn réðu ferðinni í þessum fyrri hálfleik. Eftir hálftíma leik vann Daníel Hafsteinsson boltann á hættulegum stað og hlóð í skot sem fór yfir mark gestanna. Stuttu síðar kom fyrirgjöf frá hægri inn á vítateig Leiknis. Hún sigldi í gegnum allan pakkann inni á teignum og rétt framhjá markinu.
Þegar tíu mínútur lifðu fyrri hálfleiks stakk Hallgrímur boltanum í gegn á Ásgeir Sigurgeirsson en Guy varði vel frá Ásgeiri sem var kominn í gott færi. Í næstu sókn á eftir átti Hallgrímur skot rétt fyrir utan teig. Skotið fór af varnarmanni Leiknis en Guy var vel á verði í markinu.
Í uppbótartíma fyrri hálfleiks átti Sævar Atli Magnússon, fyrirliði Leiknis, gott hlaup upp hægri kantinn. Hann kom sér með boltann inn á teig KA-manna en því miður fyrir gestina þá tókst þeim ekki að gera sér mat úr þessu.
Staðan í hálfleik var 1-0 fyrir KA.
Leiknismenn voru betri í upphafi seinni hálfleiks en þrátt fyrir það fengu þeir á sig víti þegar tíu mínútur voru liðnar af honum. Aftur va Bjarki brotlegur. Í þetta skiptið braut hann á Hauki Heiðari Haukssyni. Að sjálfsögðu fór Hallgrímur aftur á punktinn. Hann sendi Guy í rangt horn, 2-0.
Stuttu síðar fékk Sólon Breki Leifsson færi til að minnka muninn fyrir gestina. Þá slapp hann í gegn eftir sendingu Mána Austmann Hilmarssonar en heimamenn komust fyrir boltann.
Um miðjan seinni hálfleik stakk Nökkvi Þeyr Þórisson boltanum inn fyrir vörn Leiknis á Steinþór Frey Þorsteinsson. Hann skaut þó framhjá úr mjög góðu færi. Hinum megin slapp Sólon aftur í gegn en Steinþór Már Auðunsson, Stubbur, varði virkilega vel frá honum í markinu.
Á 70. mínútu gerðu KA-menn út um leikinn. Þá skoraði Ásgeir Sigurgeirsson eftir hornspyrnu. Leiknismenn höfðu reynt að koma boltanum frá markinu en eftir smá klafs inni á teig endaði boltinn hjá Ásgeiri sem potaði boltanum í netið.
Octavio Paez, í liði Leiknis, fékk rautt spjald fyrir glórulausa tveggja fóta tæklingu á Kára Gautasyni á 83. mínútu leiksins.
Lokatölur urðu 3-0 fyrir KA.
KA er með 7 stig eftir fyrstu þrjár umferðir deildarinnar. Þá hafa þeir skorað sex mörk í síðustu tveimur leikjum. Þeir hafa ekki verið þekktir fyrir mikla markaskorun á síðustu tímabilum. Leiknir er með 2 stig.