Fylkir tók á móti KR í 3. umferð Pepsi Max-deildar karla í kvöld. Jafntefli varð niðurstaðan í leik þar sem bæði liðin fara líkleg svekkt heim.
Það var mikið fjör í byrjun leiks og heimamenn komust yfir strax á 3. mínútu. Þá kom hár bolti utarlega á teig KR, nálægt endamarkinu. Arnór Borg Guðjohnsen náði til boltans og kom honum fyrir markið þar sem Arnór Sveinn Aðalsteinsson varð fyrir því óláni að setja boltann í eigið net.
Það liðu þó ekki nema um þrjár mínútur þar til KR-ingar voru búnir að jafna. Atli Sigurjónsson tók aukaspyrnu fyrir mark Fylkis, Stefnán Árni Geirsson flikkaði á fjær og þar var Grétar Snær Gunnarsson mættur til að skora. Hann setti boltann í slánna og inn af stuttu færi.
Leikurinn róaðist töluvert eftir mörkin. Um miðjan fyrri hálfleikinn fengu heimamenn ágætis færi. Dagur Dan Þórhallsson átti þá stutta sendingu innan teigs á Arnór Borg. Sá síðarnefndi fór hins vegar illa að ráði sínu og skaut boltanum hátt yfir markið.
Um tíu mínútum síðar kom Óskar Örn Hauksson sér inn á vítateig Fylkis frá hægri væng, kom inn á völlinn og tók lúmskt skot á nærstöngina. Aron Snær Friðriksson, sem kom inn í markið hjá Árbæjingum fyrir Ólaf Kristófer Helgason í kvöld, varði þó frá honum.
Staðan í hálfleik var 1-1.
Strax á fyrstu mínútu seinni hálfleiks fengu Fylkismenn vítaspyrnu. Arnór Borg steig á punktinn en Beitir Ólafsson gerði sér lítið fyrir og varði vítaspyrnuna, las Arnór.
KR-ingar þreifuðu fyrir sér eftir þetta en þeir áttu erfitt með að skapa sér færi. Varnarlína Fylkis hélt virkilega vel í kvöld. Ásgeir Eyþórsson, miðvörður þeirra, skallaði til að mynda ófáa boltanna frá marki. Eins og konungur í ríki sínu.
Eftir rúman klukkutíma leik tók Jordan Brown á sprett upp völlinn, í átt að marki gestanna. Hann kom sér í ágætis skotstöðu og hlóð í fast skot sem fór beint á Beiti. Skotið var hins vegar fast og markvörðurinn lenti í miklum vandræðum og missti boltann í gegnum klofið í sér. Arnór Sveinn Aðalsteinsson bjargaði þó markverðinum sínum með því að hreinsa á marklínu.
Stuttu síðar reyndi Óskar Örn að kom boltanum inn fyrir á Odd Inga Bjarnason en Aron í marki Fylkis náði að koma út á móti og hreinsa frá markinu, tæpt var það.
Ungir og sprækir heimamenn tóku vel við sér á lokamínútum leiksins. Þeir virtust eiga töluvert meira eftir á tankinum en KR-ingar. Í blálok leiksins átti Dagur Dan frábæra sendingu inn fyrir á Þórð Gunnar Hafþórsson sem var einn á móti Beiti. Hann var þó alltof lengi að aðhafast og KR-ingar komu knettinum í burtu.
Liðin deildu stigunum í Árbænum, 1-1.
Fylkir er með 2 stig eftir fyrstu þrjá leikina. KR er með 4 stig.