Líkurnar á því að úrslitaleikur Meistaradeildarinnar, á milli Chelsea og Manchester City, fari fram í Portúgal hafa aukist. Leikurinn færi þá fram á heimavelli Porto. The Athletic greinir frá.
Leikurinn átti upprunalega að fara fram í Istanbúl en vegna fjölda kórónuveirusmita í Tyrklandi undanfarið verður líklega ekkert af því. Landið er á rauðum lista fyrir breska ferðamenn. Þá finnst mörgum fáránlegt að tvö ensk lið, ásamt stuðningsmönnum, ferðist til Tyrklands á tímum heimsfaraldurs.
Útlit var fyrir það á tímabili að úrslitaleikurinn yrði einfaldlega á Wembley, í heimalandi liðanna tveggja, en þú er ekki útlit fyrir að svo verði. Það er meðal annars vegna þess að ekki er mögulegt fyrir erlenda styrktaraðila, fjölmiðlafólk og fleiri að fá undanþágu frá sóttkví í Bretlandi.
Portúgal er á grænum lista, þegar kemur að kórónuveirsusmitum í Bretlandi. Því er landið talinn kjörinn staður fyrir leikinn.