Stuðningsmenn Liverpool voru margir hverjir reiðir í gær þegar Manchester United tapaði gegn Leicester í ensku úrvalsdeildinni. Það var ekki tapið sem slíkt sem pirraði stuðningsmennina heldur sú staðreynd að Ole Gunnar Solskjær stillti upp varaliði sínu.
United hefur nú þegar tryggt sér sæti í Meistaradeild Evrópu að ári en Leicester, Liverpool og fleiri lið berjast um að komast í þessa eftirsóttu keppni.
Sigur Leicester í gær var mikilvægur fyrir liðið en gerir það að verkum að Liverpool á minni möguleika á miða í Meistaradeildina. Liverpool heimsækir United á morgun. Lærisveinar Solskjær léku á sunnudag, í gær og á morgun, álagið því gríðarlegt og stjórinn treysti sér ekki til að spila á sama liðinu í öllum leikjum.
Þetta pirraði marga stuðningsmenn Liverpool út um allan heim og á Íslandi einnig, miklar umræður hafa skapast í hópi stuðningsmanna Liverpool á Facebook.
Heiðar Austmann einn vinsælasti útvarpsmaður í sögu Íslands er einn af þeim sem leggur orð í belg um málið. „Punglausi OGS, tölfræðilegur möguleiki á titlinum en stillir upp varaliði og hendir inn hvíta handklæðinu. Mun aldrei heimsækja Noreg. EVER!!,“ skrifar Heiðar á Facebook síðuna en Manchester City varð meistari við tap United í gær.
Heiðar vonar að Liverpool sem varð enskur meistari á síðustu leiktíð sanni ágæti sitt gegn United á morgun. „Hann stillir upp sínu sterkasta á fimmtudaginn, vittu til. Á þá ósk heita við rúllum yfir MU til að sýna það að það er bara tilviljun/óheppni/meiðsli sem olli því að þeir eru fyrir ofan,“ skrifar útvarpsmaðurinn geðþekki.