Fyrrum knattspyrnumaðurinn Garðar Gunnlaugsson hefur undanfarið sýnt stuðning sinn við #metoo. Ný bylgja fór af stað á dögunum og hefur fjöldi kvenna stigið fram á samfélagsmiðlum og sagt frá ofbeldi sem þær hafa lent í. Garðar hvetur aðra til að stíga fram og taka þátt í baráttunni gegn kynferðisofbeldi. Hann ræddi málið í útvarpsþættinum ,,Lestin“ á Rás 1.
Í kjölfar frásagna kvennanna hefur fjöldi fólks, bæði konur og karlar, skrifað á samfélagsmiðla að það muni standa með og trúa þolendum í kynferðisbrotamálum. Garðar er einn þeirra sem hefur gert það. Hann ræðir það meðal annars hversu karllæg umræðan í knattspyrnuklefum getur verið. ,,Þar hallar oft á konur og aðra minnihlutahópa. Ekki það að konur séu í minnihlutahóp. Þær eru æðri en við að mörgu leyti, ef ekki flestu. Þetta eru oft umræður sem stjórnað er af tveimur, þremur í klefanum og hinir humma og fylgja með, eru meðvirkir. Ég er ekkert saklaus, búinn að vera í þessum heimi í 20-30 ár.“
Garðar hvetur fólk sem hefur vettvang til að styðja við baráttuna gegn kynferðisofbeldi, að gera það.
,,Það hefur verið átakanlegt að lesa Twitter síðustu vikur og mig langar að fólk sem er með stóran fylgjendahóp, fólk sem er með aðdáendur og eru fyrirmyndir annara, að þau stígi fram. Sérstaklega karlar, þróttamenn, fótboltamenn,“ sagði Garðar.
Hann gerir sér grein fyrir því að með því að ræða málefnið, sé hann að opna á gagnrýni í sinn garð.
,,Það verður eflaust rætt um mig í einhverjum klefum um landið en ég er með breitt bak svo mér er slétt sama.“
Sjálfur segist Garðar ekki hafa þorað að taka slaginn við fólk sem hefur ranghugmyndir þegar kemur að málefnum kynjanna.
,,Ef ég lít í eigin barm hef ég aldrei þorað að taka þann slag og þar er eitthvað sem ég skammast mín fyrir núna.
Hægt er að hlusta á þetta áhugaverða spjall í heild sinni með því að smella hér.