Aymeric Laporte mun spila með Spáni á Evrópumótinu í sumar, ef marka má frétt Marca á Spáni. Spænska knattspyrnusambandið hefur verið að vinna í málinu síðustu vikurnar.
Luis Enrique þjálfari Spánar vill fá Laporte til að spila fyrir sig en Frakkar hafa ekki haft áhuga á að nota hann.
Laporte er öflugur varnarmaður sem hefur gert það gott hjá Manchester City, áður lék hann með Athletic Bilbao á Spáni.
Ættartengsl Laporte til Spánar gera honum kleift að spila fyrir Spán en Didier Deschamps þjálfari Frakklands hefur ekki viljað nota hann.
Í frétt Marca segir að málið sé á lokastigi og aðeins eigi eftir að fá undirritun frá FIFA, detti hún í gegn á næstu dögum er öruggt að Laporte verður í EM hópi Spánar.