Kristján Kristjánsson formaður knattspyrnudeildar Þróttar segir að mistök í skilum á virðisaukaskatti hafi orðið til þess að virðisaukaskattsnúmer knattspyrnudeildar sé nú flokkað sem vánúmer hjá ríkisskattstjóra. Kristján segir að búið sé að leysa málið og að Þróttur hafi fengið nýtt virðisaukaskattsnúmer í kjölfarið.
„Við erum búnir að laga þetta, það voru gerð mistök við skil á skýrslu um virðisaukaskatt. Ég sá útprentið af skránni í gær og þetta er komið í lag. Þetta er bagalegt,“ sagði Kristján um málið þegar við ræddum við hann í dag.
Á vef RSK segir:
Vánúmer er virðisaukaskattsnúmer sem ríkisskattstjóri hefur afskráð með úrskurði á grundvelli 27. gr. A laga um virðisaukaskatt, sem hljóðar svo: „Hafi skattaðili sætt áætlun virðisaukaskatts skv. 25. eða 26. gr. samfellt í tvö uppgjörstímabil eða lengur er ríkisskattstjóra heimilt að fella hann af virðisaukaskattsskrá.“
Kristján segir að þetta eigi ekki að hafa nein áhrif á Þróttara í framtíðinni. „Við pössuðum ekki nógu vel upp á okkur, þetta á ekki að hafa nein áhrif á neitt í framtíðinni.“
Í frétt Morgunblaðsins frá 2014 segir meðal annars um Válistann. „Ríkisskattstjóri hefur sett upp á vef sínum lista yfir fyrirtæki og einstaklinga sem strikuð hafa verið út af virðisaukaskattsskrá vegna vanskila á skýrslum og skatti. Listinn er ekki síst settur upp til að viðskiptavinir geti varað sig á að borga viðkomandi virðisaukaskatt,“ segir á vef Morgunblaðsins.