ÍBV tók á móti Íslandsmeisturum Breiðabliks í 2. umferð Pepsi-Max deildar kvenna í kvöld á Hásteinsvelli. Leiknum lauk með 4-2 sigri ÍBV. Blikar sem byrjuðu mótið á 9-0 stórsigri gegn Fylki tapa því sínum fyrstu stigum í deildinni.
Kristín Dís kom Blikum yfir strax í byrjun leiks og leit út fyrir að þetta yrði enn einn auðveldur sigur þeirra.
Annað kom á daginn en Delaney Bale Pridham jafnaði metin aðeins 6 mínútum síðar með frábæru skallamarki. Pridham var aftur á ferðinni eftir hálftíma leik og kom heimakonum yfir eftir flotta skyndisókn. Þá tók Viktorija Zalcikova við og skoraði 2 mörk í uppbótartíma fyrri hálfleiks en ÍBV sundurspilaði Blikaliðið á þeim tíma.
Olga Sevcova fékk rautt spjald undir lok fyrri hálfleiks fyrir að slá Ástu Eir.
Blikar sóttu stíft í seinni hálfleik og lágu á heimakonum en ÍBV varðist vel og leit ekki út fyrir að vera manni færri. Agla María klóraði í bakkann fyrir gestina undir lok leiks. Ekki komu fleiri mörk eftir í leikinn og sanngjarn sigur ÍBV staðreynd.
ÍBV 4 – 2 Breiðablik
0-1 Kristín Dís (´2)
1-1 Pridham (´8)
2-1 Pridham (´30)
3-1 Zaicikova (´45)
4-1 Zaicikova (´45)
4-2 Agla María (´88)