UEFA er tilbúið til þess að láta Englendinga fá úrslitaleikinn í Meistaradeildinni heim á Wembley gegn því að breska ríkisstjórnin geti uppfyllt ákveðin skilyrði. Chelsea og Manchester City mætast í úrslitunum. The Sun greinir frá þessu.
Fyrir helgi var Tyrkland, þar sem úrslitaleikurinn á að óbreyttu að fara fram, sett á rauðan lista fyrir breska ferðamenn vegna fjölda kórónuveirusmita. Það þýðir að fólk sem færi á leikinn í Istanbúl þyrfti að fara í tíu daga sóttkví við heimkomuna til Englands. UEFA er sagt sammála ríkisstjórn Bretlands um það að ekki sé sniðugt að láta stuðningsmenn ferðast til Tyrklands nú í miðri bylgju af kórónuveirufaraldrinum.
UEFA hefur þó útilokað það að heimavellir Arsenal, Aston Villa, Newcastle eða Tottenham verði notaðir. Þessir vellir hafa verið í umræðunni síðustu daga. Wembley, sem getur tekið við 22.500 manns eins og er, í takt við reglur, er eini völlurinn sem kemur til greina.
UEFA hefur þó sett ákveðin skilyrði fyrir því að þetta verði að veruleika.
Til að mynda þyrfti úrslitaleikur í umspili Championship-deildarinnar, þar sem keppt er um sæti í ensku úrvalsdeildinni á næstu leiktíð, að vera færður. Eins og er á hann að fara fram á Wembley sama dag og úrslitaleikur Meistaradeildarinnar. Þá vill UEFA að fjölmiðlamenn, sjórnendur útsendinga, styrktaraðilar og heiðursgestir fái að mæta án þess að þurfa að fara í sóttkví. Að lokum mun UEFA biðja liðin sem tóku þátt í Meistaradeildinni á þessari leiktíð að gefa hluta af fjármunum sínum sem hlutust vegna þátttöku í keppninni til þess að borga Tyrkjum til baka þær 20 milljónir punda sem þeir hafa eytt í leikinn.
Líklegt er að niðurstaða fáist snemma í vikunni.