Real Madrid tók á móti Sevilla í spænsku La Liga í kvöld. Lærisveinum Zinedine Zidane mistókst að landa 3 stigum í toppbaráttunni.
Karim Benzema kom boltanum í netið snemma leiks en markið var dæmt af vegna rangstöðu eftir skoðun í VAR.
Það voru gestirnir sem komust yfir með marki Ivan Rakitic um miðbik fyrri hálfleiks. Staðan í hálfleik var 0-1.
Marco Asensio jafnaði metin fyrir Real á 67. mínútu. Aðeins um tíu mínútum síðar var Rakitic þó búinn að koma Sevilla aftur yfir með marki úr vítaspyrnu. Það leit allt út fyrir sigur gestanna þegar Diego Carlos varð fyrir því óláni að setja boltann í eigið mark á fjórðu mínútu uppbótartímans. Lokatölur urðu 2-2.
Real Madrid er í öðru sæti með 75 stig, jafnmörg og Barcelona. Þau eru 2 stigum á eftir toppliði Atletico Madrid. Sevilla er í fjórða sæti með 71 stig.