Gylfi Þór Sigurðsson besti knattspyrnumaður Íslands og eiginkona hans Alexandra Helga Ívarsdóttir eignuðust sitt fyrsta barn í vikunni. Frá þessu greinir Alexandra á Instagram síðu sinni.
Stúlkan kom í heiminn á miðvikudag og hefur fengið nafnið Melrós Mía Gylfadóttir.
Gylfi og Alexandra hafa verið saman um langt skeið en þau gengu í hjónaband sumarið 2019 en brúðkaupið var haldið á Ítalíu.
Gylfi Þór og Alexandra höfðu í nokkur ár reynt að eignast barn og hafði Gylfi Þór rætt um það. „Það er ekkert smá mikil spenna, við erum búin að reyna þetta í einhver sex ár og loksins gekk þetta. Þetta mun breyta lífinu,“ sagði Gylfi í viðtali við okkur á dögunum.
Gylfi og Alexandra búa á Englandi þar sem þau stjana nú við nýjasta fjölskyldumeðliminn en Gylfi leikur með Everton í ensku úrvalsdeildinni.