Nokkur Íslendingalið voru í eldlínunni í Frakklandi og Skotlandi fyrr í dag. Toppbaráttan í Frakklandi er hörð en íslendingalið Le Havre er fallið.
Anna Björk Kristjánsdóttir lék allan leikinn í vörninni og Berglind Björg Þorvaldsdóttir í sóknarlínunni fyrir Le Havre í 0-2 tapi gegn PSG í efstu deild Frakklands. Le Havre er nú fallið úr deildinni þegar tveir leikir eru eftir. PSG er efst með 55 stig, stigi meira en Lyon. Þessi tvö efstu lið eiga eftir að leika þrjá leiki.
Lyon vann einmitt 0-4 sigur á Issy í dag. Sara Björk Gunnarsdóttir er á mála hjá Lyon en hún verður ekki með liðinu á næstunni þar sem hún á von á barni.
Arna Sif Ásgrímsdóttir var í byrjunarliði Glasgow City sem vann 0-2 útisigur á Rangers í efstu deild Skotlands. Lið hennar er efst í deildinni með 39 stig.