Leeds tók á móti Tottenham í ensku úrvalsdeildinni í dag. Þeir unnu að lokum góðan sigur.
Leeds var betri aðilinn í fyrri hálfleiknum. Stuart Dallas kom þeim yfir er hann náði frákasti eftir vörslu Hugo Lloris og kom boltanum í netið.
Tottenham jafnaði þó úr sínu fyrsta almennilega færi í leiknum. Þá skoraði Heung-Min Son eftir frábæran undirbúning Dele Alli. Stuttu síðar kom Harry Kane boltanum í netið en eftir skoðun VAR var markið dæmt af vegna rangstöðu.
Patrick Bamford kom heimamönnum svo aftur yfir í lok fyrri hálfleiks. Það gerði hann eftir fyrirgjöf Ezgjan Alioski. Staðan í hálfleik var 2-1 fyrir heimamenn.
Leikmenn Spurs komu sterkari inn í seinni hálfleikinn. VAR tók annað mark af Harry Kane á 50. mínútu, aftur vegna rangstöðu.
Rodrigo gerði hins vegar út um leikinn á 84. mínútu. Þá fékk Raphinha sendingu inn fyrir vörn gestanna, brunaði upp völlinn og renndi honum á Rodrigo, sem var í betra færi. Sá síðarnefndi afgreiddi boltann í netið. Sanngjarn 3-1 sigur Leeds varð niðurstaðan í dag.
Leeds er eftir leikinn í níunda sæti deildarinnar með 50 stig. Tottenham er í sjötta sæti með 56 stig. Þeir voru líklega endanlega að stimpla sig út úr baráttu um Meistaradeildarsæti á næstu leiktíð með tapinu í dag.