Pepsi Max-deild karla er komin á fulla ferð og því ber að fagna. Þrír leikir fara fram í kvöld í 2. umferð leiktíðarinnar.
Breiðablik, sem olli vissum vonbrigðum gegn KR í fyrstu umferð er þeir töpuðu 0-2, heimsækja nýliða Leiknis. Þeir síðastnefndu náðu í sterkt stig á útivelli gegn Stjörnunni í fyrsta leik. Það er ljóst Blikar þurfa nauðsynlega á sigrinum að halda í kvöld og koma sér á blað í deildinni. Þeir ætla sér að vera með í titilbaráttu í sumar. Það verður að segjast að pressan er öllu minni á Leikni. Þeir munu þó án efa mæta dýrvitlausir í þennan fyrsta heimaleik í efstu deild síðan 2015.
ÍA tekur þá á móti Víkingi Reykjavík. Skagamenn spiluðu flottan fyrri hálfleik gegn Val í fyrstu umferð en áttu fá svör við Íslandsmeisturunum í þeim seinni og töpuðu að lokum 2-0. Víkingar unnu nýliða Keflavíkur 1-0 í Fossvoginum í fyrsta leik. Lítið var um flugeldasýningu í þeim leik. Þessi slagur gæti orðið ansi áhugaverður.
Loks mætast HK og Fylkir í Kórnum. Þeirr fyrrnefndu gerðu markalaust jafntefli við KA í nokkuð bragðdaufum leik í fyrstu umferð. Fylkismenn töpuðu gegn FH í leik þar sem þeir misstu mann af velli í fyrri hálfleik. Dómurinn var afar vafasamur og drap í raun leikinn fyrir Árbæingum. Þeir verða án efa klárir í að reyna að svara fyrir tapið í Kórnum.
Allir leikirnir fara fram klukkan 19:15 í kvöld.