Jan Oblak, markvörður Atletico Madrid, er sagður vilja komast í ensku úrvalsdeildina. Þau svokölluðu stóru sex eru sögð heilla hann.
Oblak hefur spilað með Atletico frá því árinu 2014, þegar hann kom frá Benfica. Hann hefur síðan bætt sig mikið og orðið einn besti markvörður heims. Hann hefur til að mynda haldið 158 sinnum hreinu í tæpum 300 leikjum fyrir Atleti.
Þrátt fyrir það að Atletico hafi átt gott tímabil og séu í hörkubaráttu við Real Madrid og Barcelona um meistaratitilinn er hinn 28 ára gamli Oblak sagður klár í nýja áskorun.
Rob Dawson, blaðamaður á ESPN, segir að fulltrúar leikmannsins séu bjartsýnir á að koma honum að hjá einhverjum af stóru sex liðunum á Englandi. Þá er verið að tala um Arsenal, Chelsea, Liverpool, Manchester City, Manchester United og Tottenham.
Atletico leikur þessa stundina við Barcelona í leik sem gæti orðið þýðingarmikill í titilbaráttunni.