Emma Hayes, knattspyrnustjóri kvennaliðs Chelsea, hrósar félaginu fyrir stuðning sinn við bæði kvenna- og karlalið félagsins. Liðin eru bæði komin í úrslitaleik Meistaradeildar Evrópu.
Karlalið Chelsea komst í úrslit Meistaradeildarinnar í vikunni eftir sigur á Real Madrid í undanúrslitunum. Kvennalið félagsins vann Bayern Munchen í sínu undanúrslitaeinvígi.
,,Þetta er frábær tilfinning fyrir alla. Að sigra er í DNA Chelsea,“ sagði Hayes.
,,Ég hef alltaf sagt það að þetta er fjölskyldurekið félag með fólk í æðstu stöðum sem er vel tengt öllum liðum Chelsea. Það er einstakt hjá toppliði. Bæði lið hafa fundið fyrir mikilli ánægju og spennu frá félaginu. Við höfum verðlaunað stuðninginn sem við höfum fengið. Við höfum sýnt hvað við getum með þennan frábæra stuðning.“
Kvennalið Chelsea er þá í góðri stöðu til að tryggja sér sinn annan meistaratitil heima fyrir í röð. Þær eru með 2 stiga forskot á Manchester City fyrir lokaumferðina í deildinni. Sigur gegn Reading mun gulltryggja titilinn.