Lokaumferð ensku B-deildarinnar fór fram í dag. Derby tókst að halda sér uppi. Lið Jóns Daða Böðvarssonar skíttapaði gegn Coventry.
Fyrir lokaumferðina í dag var ljóst að Norwich og Watford færu upp í ensku úrvalsdeildina. Einnig var það á hreinu að Brentford, Swansea, Barnsley og Bournmouth myndu fara í umspil um síðasta lausa sætið þar.
Eina spennan var því í fallbaráttunni. Nú er ljóst að það eru Sheffield Wednesday, Rotherham og Wycombe sem fara niður í C-deildina. Derby, undir stjórn Wayne Rooney, gerði 3-3 jafntefli gegn Wednesday í dag og dugði það til þess að halda liðinu uppi. Rotherham fékk á sig jöfnunarmark í lok síns leiks sem felldi liðið og tryggði Derby áframhaldandi veru í deildinni.
Þess má geta að Jón Daði sat allan tímann á varamannabekk Millwall sem tapaði 6-1 gegn Coventry í leik sem litlu máli skipti. Millwall lýkur tímabilinu í 11. sæti.