Guðmundur Kristjánsson hefur framlengt samning sinn við FH um tvö ár, út árið 2023. Gummi hefur verið einn af lykilmönnum karlaliðs FH undanfarin ár og mikil ánægja ríkir innan félagsins með áframhaldandi samstarf.
Frá komu sinni frá Start í Noregi 2018 hefur Gummi leikið 68 leiki í efstu deild fyrir FH og í heildina leikið 137 leiki í efstu deild og skorað í þeim 17 mörk. Auk þess á Gummi 6 A-landsleiki fyrir Ísland.
„Ég er virkilega sáttur að taka áfram þátt í þessu verkefni hér í Kaplakrika. Mér finnst ég eiga ókláruð verkefni persónulega og mun gefa allt í að ná markmiðum mínum og félagsins. Hópurinn er sterkur, umhverfið heilbrigt og það eru jákvæðir straumar í kringum félagið og mannauðinn í Kaplakrika“ sagði Gummi við undirskriftina.