Manchester United og Villarreal mætast í úrslitaleik Evrópudeildarinnar 2021. Þetta varð ljóst eftir úrslit kvöldsins í undanúrslitum keppninnar.
Villarreal hélt hreinu á Emirates og fer áfram í einvíginu
Á Emirates leikvanginum þurftu heimamenn sigur eftir að hafa tapað fyrri leiknum gegn Villarreal, 2-1, ytra.
Fyrri hálfleikur var bragðdaufur. Gestirnir voru virkilega þéttir til baka og gáfu fá færi á sér. Pierre-Emerick Aubameyang, fyrirliði Arsenal, komst næst því að skora í fyrri hálfleik. Þá fór skot hans utarlega í vítateig Villarreal í stöngina. Dani Parejo átti hættulegustu tilraun þeirra gulklæddu með skoti rétt yfir markið úr aukaspyrnu, rétt fyrir utan teig. Staðan í hálfleik var markalaus.
Það var meiri kraftur í liði Arsenal í byrjun seinni hálfleiks. Nicolas Pepe átti skot rétt framhjá markinu á 47. mínútu og stuttu síðar fékk Emile Smith-Rowe gott færi eftir vandræðagang hjá Geronimo Rulli, markverði Villarreal. Skot Smith-Rowe fór þó framhjá markinu. Gerard Moreno fékk þá tækifæri til að skora fyrir gestina snemma í hálfleiknum en allt kom fyrir ekki.
Leikurinn átti svo eftir að róast aftur. Aubameyang átti skalla í stöng eftir fyrirgjöf frá Hector Bellerin þegar tíu mínútur lifðu leiks, allt kom fyrir ekki. Villarreal fer áfram eftir 2-1 sigur samanlagt.
Tap gegn Roma en einvígið aldrei í hættu fyrir Man Utd
Í Rómarborg var það í raun formsatriði fyrir Manchester United að tryggja farseðil sinn til Gdansk. Þeir unnu fyrri leikinn á Old Trafford 6-2.
Leikmenn Roma ætluðu sér að koma marki á United sem fyrst til þess að hleypa lífi í einvígið. Þeir áttu fín marktækifæri en David De Gea átti nokkrar fínar vörslur til þess að halda leiknum markalausum. Edinson Cavani refsaði heimamönnum fyrir það að nýta ekki færin sín og kom Man Utd yfir þegar rúmar fimm mínútur lifðu fyrri hálfleiks. Markið kom eftir skyndisókn þar sem Fred lék boltanum inn fyrir á Cavani sem kláraði færið sitt. United leiddi með þessu marki í hálfleik.
Roma tókst að snúa leiknum sér í vil með tveimur mörkum með stuttu millibili þegar tæpur stundarfjórðungur var liðinn af seinni hálfleik. Edin Dzeko jafnaði metin er hann skallaði skot Pedro í markið. Bryan Cristiante skoraði annað mark Roma með góðu skoti.
Ef heimamenn gerðu sér einhverjar vonir eftir þessi mörk þá var slökkt í þeim á 69. mínútu þegar Cavani skoraði sitt annað mark. Markið kom eftir fyrirgjöf frá Bruno Fernandes.
Roma átti þó eftir að skora eitt mark í viðbót. Skot Nicola Zalewski fór þá í Alex Telles og í netið. Markið verður líklega skráð sem sjálfsmark.
Lokatölur urðu 3-2 fyrir Roma en Manchester United fer áfram eftir samanlagðan 8-5 sigur í einvíginu.
Manchester United og Villarreal mætast í úrslitaleik Evrópudeildarinnar í Gdansk þann 26. maí.