Chelsea tekur á móti Real Madrid í seinni leik liðanna í undanúrslitum Meistaradeildar Evrópu á morgun. Fyrri leikurinn endaði með 1-1 jafntefli liðanna svo allt er undir á Stamford Bridge á morgun.
Thomas Tuchel hrósaði Kante í hástert á blaðamannafundi fyrir leikinn og sagði hann vera einn mikilvægasta leikmann liðsins.
„Hann verður bara að sætta sig við að ég knúsi hann mikið,“ sagði Tuchel á blaðamannafundi.
„Hann er yndislegur gaur, frekar feiminn. Hann er rólegur og líður vel í ró og næði og það eru engin læti í honum. Hann er stöðugt brosandi og kemur fram við alla á sínum eigin forsendum, en alltaf kurteis.“
„Ég er svo ánægður að leikmenn eins og hann séu til. Það er yndislegt að fylgjast með honum.“
„Hann er mjög sterkur andlega og hjálpar öllum á vellinum. Hann er leikmaðurinn sem þú þarft til að vinna titla. Mig hefur dreymt um þennan leikmann alla ævi.“
„Hann er ómissandi og verður lykillinn að sigri á morgun.“