Lögreglumaður hlaut skurð í andliti er hann reyndi ásamt kollegum sínum að ná stjórn á mótmælunum sem áttu sér stað fyrir utan Old Trafford, heimavöll Manchester United í gær.
Mótmælin urðu til þess að leik Manchester United og Liverpool í gær var frestað um óaákveðinn tíma.
Þúsundir mótmælenda söfnuðust saman fyrir utan Old Trafford til þess að mótmæla eignarhaldi Galzer-fjölskyldunnar á Manchester United. Hópur mótmælanda braut sér síðan leið inn á Old Trafford og einhver skemmdarverk voru unnin.
Lögreglan í Manchester hefur staðfest að lögreglumaður hafi hlotið skurð í andliti eftir að hafa fengið glerflösku í andlitið. Af myndum af dæma má lögreglumaðurinn teljast heppinn að glerbrot í flöskunni hafi ekki farið í auga hans.
„Mótmælendur fyrir utan Old Trafford voru sérstaklega aðgangsharðir gagnvart lögreglu áður en að hópur af rúmlega 100 einstaklingum þröngvaði sér leið inn á völlinn með þeim afleiðingum að nokkrir starfsmenn óttuðust um öryggi sitt og læstu sig inni,“ stóð meðal annars í yfirlýsingu sem lögreglan í Manchester sendi frá sér.