Nú er orðið ljós að leikur Manchester United og Liverpool sem átti að fara fram á Old Trafford í dag, mun ekki fara fram. Ástæðan fyrir því eru mótmæli stuðningsmanna Manchester United er beindust að eigendum félagsins, Glazer-fjölskyldunni.
Mótmælendur náðu að brjóta sér leið inn á Old Trafford og mikil ringulreið skapaðist sem varð til þess að leiknum var frestað fyrst um sinn og síðan aflýst.
Manchester United hefur í kjölfarið gefið út yfirlýsingu:
„Í samráði við lögregluna, ensku úrvalsdeildina og hlutaðeigandi knattspyrnufélög hefur leik okkar gegn Liverpool verið frestað sökum öryggissjónarmiða er varða mótmælin í dag. Við eigum nú í viðræðum við ensku úrvalsdeildina varðandi endurskoðaða dagsetningu fyrir leikinn.“
„Stuðningsmenn okkar brenna fyrir Manchester United og við viðurkennum fullkomlega rétt þeirra til tjáningar og friðsamlegra mótmæla.“
„Við hörmum hins vegar atburði dagsins og þær aðgerðir sem setttu stuðningsmenn, starfsfólk og lögreglu í hættu. Við þökkum lögreglunni fyrir þeirra stuðning og munum aðstoða hana við allar rannsóknir er varða atburði dagsins,“ stóð í yfirlýsingu sem birtist á heimasíðu Manchester United.