Nýliðar Leiknis frá Reykjavík náðu í sterkt stig gegn Stjörnumönnum í fyrstu umferð Pepsi-Max deildar karla í gærkvöldi. Leiknum lauk með 0-0 jafntefli en leikið var á Samsungvellinum í Garðabæ.
Guy Smit, markvörður Leiknismanna var í miklum ham í leiknum og gerði gæfumuninn með framúrskarandi markvörslum í nokkur skipti. Rætt var um frammistöðu hans í Pepsi-Max Stúkunni á Stöð 2 Sport eftir leik.
„Frábær frumraun hjá honum í sínum fyrsta leik í efstu deild á Íslandi og heilt yfir var frammistaða hans mjög góð. Hann spyrnir boltanum vel frá sér, er óhræddur við að koma út í teig. Hann var virkilega öflugur,“ sagði Reynir Leósson, einn af sérfræðingum Pepsi-Max stúkunnar á Stöð 2 sport.
Gmit gekk til liðs við Leikni fyrir síðasta tímabil en Leiknir komst upp í Pepsi-Max deildina eftir að hafa endað í 2. sæti Lengjudeildarinnar þegar mótið var flautað af í fyrra.
Smit á að baki 24 leiki fyrir Leikni og mun í sumar mæta sínum gamla liðsfélaga, landsliðsmarkverðinum Hannesi Þór Halldórssyni en þeir voru saman hjá hollenska liðinu Nec Nijmegen á sínum tíma.