Leikur Manchester United og Liverpool í ensku úrvalsdeildinni mun ekki fara fram í dag. Þetta hefur fengist staðfest frá forráðamönnum ensku úrvalsdeildarinnar.
Nýr leiktími hefur ekki verið ákveðinn og hann verður ekki ákveðinn í dag samkvæmt heimildum SkySports.
Stuðningsmenn Manchester United, sem hafa verið að mótmæla eignarhaldi Glazer-fjölskyldunnar á félaginu í dag, brutu sér leið inn á heimavöll liðsins, Old Trafford, fyrr í dag með þeim afleiðingum að fresta þurfti leiknum.
Á ákveðnum tímapunkti var ekki ljóst hvort að leikurinn gæti farið fram og nú hefur það fengist endanlega staðfest að hann fer ekki fram í dag.
Hvorki leikmenn Manchester United né Liverpool náðu að mæta á Old Trafford í dag á tilskildum tíma en dómari leiksins Michael Oliver mætti fljótlega á staðinn til þess að meta aðstæður.
Meðal þess sem þurfti að gera til þess að sjá til þess að leikurinn gæti farið fram, var að sótthreinsa mögulega snertifleti á vellinum sökum Covid-19 faraldursins þar sem að fjöldi fólks safnaðist saman innan vallar.
Einnig þurfti að tryggja það að hægt væri að gæta fyllsta öryggis fyrir þá aðila sem koma að leiknum í dag, hvort sem það eru leikmenn, starfslið eða dómarar.
Uppspretta mótmælanna er óánægja stuðningsmanna félagsins með eignarhald Glazer fjölskyldunnar á félaginu. Dropinn sem fyllti mælinn var ákvörðun eigendanna um að Manchester United gerðist stofnaðili að Ofurdeildinni, deild sem á endanum ekkert varð af.
Confirmed: Manchester United vs Liverpool has been postponed #MUFC
— Laurie Whitwell (@lauriewhitwell) May 2, 2021