Matthías Vilhjálmsson, sneri aftur í efstu deild Íslandsmótsins með FH í gær er liðið vann 2-0 sigur á Fylki í fyrstu umferð deildarinnar.
Í upphafi síðari hálfleiks skoruðu FH sitt annað mark í leiknum eftir frábæra sókn. Hörður Ingi Gunnarsson kom þá með sendingu frá hægri væng á Þóri sem var rétt fyrir utan teig. Þórir vippaði boltanum svo smekklega inn fyrir á Matthías sem skoraði í sínum fyrsta leik í endurkomunni með FH.
Matthías byrjar því þetta seinna skeið sitt með FH eins og hann endaði sitt fyrra skeið í efstu deild en árið 2011, þá í sínum síðasta leik í bili fyrir FH, skoraði Matthías gegn Fylki á Fylkisvellinum í 5-3 sigri FH.
Matthías á að baki Íslandsmeistaratitla með FH, 116 leiki í efstu deild og 38 mörk. Hann er nú snúinn heim aftur úr atvinnumennsku og verður fróðlegt að fylgjast með honum og FH-liðinu í sumar.