Gylfi Þór Sigurðsson, leikmaður Everton og íslenska landsliðsins, segist hlakka til að flytja aftur heim til Íslands þegar atvinnumannaferlinum lýkur. Þetta segir hann í viðtali við Sportveiðiblaðið.
,,Ég hlakka mjög mikið til að koma aftur heim. Þetta hefur aðeins verið að ágerast síðustu árin og þar spilar veiðin líka sterkt inn í,“ sagði Gylfi. Hann hefur verið í atvinnumennsku lengi og búið lengur erlendis en hér á landi.
Gylfi hefur verið frábær með Everton upp á síðkastið og er lykilmaður í liði Carlo Ancelotti.
,,Íslensk náttúra er svo ótrúleg og togar í mig,“ bætti Gylfi við.
Everton er í áttunda sæti ensku úrvalsdeildarinnar með 52 stig. Þeir eru 6 stigum frá Meistaradeildarsæti og eiga leik til góða á liðin fyrir ofan sig.