Southampton tók á móti Leicester í fyrsta leik helgarinnar í ensku úrvalsdeildinni í kvöld. Lokatölur urðu 1-1 þrátt fyrir að heimamenn hafi verið færri nánast allan leikinn.
Southampton byrjaði leikinn af krafti og Kyle Walker-Peters kom boltanum í netið eftir tæpar tvær mínútur. Hann hafði þó verið ranstæður í aðdraganda marksins og stóð það því ekki.
Á 10.mínútu leiksins fékk Jannik Vestergaard að líta rauða spjaldið. Hann tapaði boltanum þá til Jamie Vardy á hættulegum stað og í tilraun sinni til að bæta upp fyrir mistök sín braut hann á Vardy. Daninn var aftasti maður Southampton þegar brotið átti sér stað og var því rekinn af velli.
Þrátt fyrir að vera komnir í erfiða stöðu mjög snemma leiks þá hleyptu heimemenn liði Leicester ekki í hættulegar stöður það sem eftir var fyrri hálfleiks. Markalaust var eftir 45 mínútur.
Gestirnir komu öflugir inn í seinni hálfleikinn, manni fleiri. Það var þó Southampton sem fékk vítaspyrnu þegar tæpur stundarfjórðungur var liðinn af seinni hálfleik. Boltinn hafði þá farið í hönd Kelechi Ihenacho innan teigs.
James Ward-Prowse fór á punktinn og kom 10 mönnum Southampton yfir í leiknum.
Jonny Evans jafnaði leikinn 7 mínútum síðar. Miðvörðurinn var þá staddur framarlega á vellinum þar sem Leicester hafði átt hornspyrnu stuttu áður. Ihenacho gaf boltann fyrir á hann og Evans skallaði í netið.
Leikmenn Leicester reyndu hvað þeir gátu að koma marki á Southampton á lokamínútum leiksins en allt kom fyrir ekki. Lokatölur 1-1.
Leicester er í þriðja sæti deildarinnar með 63 stig, enn í fínum málum hvað varðar Meistaradeildarbaráttuna.
Southampton er með 37 stig í fjórtánda sæti, 10 stigum fyrir ofan fallsvæðið.