Landsliðsframherjinn Kolbeinn Sigþórsson var í byrjunarliði Gautaborgar og spilaði allan leikinn er liðið tapaði 3-2 gegn Degerfors í sænsku úrvalsdeildinni, Allsvenskan, í kvöld. Þrátt fyrir að úrslitin séu neikvæð fyrir okkar mann þá verður að teljast gleðitíðindi að Kolbeinn spili allan leikinn en hann er greinilega að komast í gott leikform.
Degerfors komst þremur mörkum yfir í fyrri hálfleik en Gautaborg klóraði í bakkann í seinni hálfleik en náði ekki að kreista fram jafntefli. Degerfors hafði tapað fyrstu tveimur leikjunum sínum og deildinni og úrslitin koma því á óvart. Gautaborg er með fjögur stig eftir fyrstu þrjá leikina.
Mikael Neville Anderson var í byrjunarliði Midtjylland þegar þeir sóttu Nordsjælland heim í dönsku úrvalsdeildinni í kvöld. Leikurinn endaði með 3-2 sigri heimamanna í Nordsjælland. Mikael átti stoðsendingu í öðru marki Midtjylland þegar gestirnir komust yfir. Mikael fór svo af velli á 81. mínútu og eftir það skoruðu leikmenn Nordsjælland tvö mörk og tryggðu sér stigin þrjú.
Midtjylland er í toppsætinu í dönsku deildinni, stigi á undar Bröndby en fimm leikir eru eftir í deildinni.