Leicester tók í kvöld á móti Crystal Palace í 33. umferð ensku úrvalsdeildarinnar í knattspyrnu. Leicester vann 2-1 sigur og tryggði sér þar með mikilvæg stig í Meistaradeildarbaráttunni.
Leicester áttu ansi slakan fyrri hálfleik og það var Zaha sem kom Crystal Palace yfir snemma leiks eftir frábæra skyndisókn. Þannig stóðu leikar í hálfleik sem var ansi óvænt fyrir leik en nokkuð sanngjarnt engu að síður.
Rodgers virðist hafa lesið yfir liðinu í hálfleik en allt annað lið mætti til leiks í seinni. Castagne jafnaði metin snemma í seinni hálfleik eftir stoðsendingu frá Iheanacho. Það var svo Iheanacho sjálfur sem kom heimamönnum yfir þegar 10 mínútur voru eftir af leiknum með frábæru marki. Þar við sat og Leicester tryggja sér gríðarlega mikilvæg stig í Evrópubaráttunni.
Með sigrinum styrkir Leicester stöðu sína í deildinni og er liðið í 3. sæti, fjórum stigum á undan Chelsea sem er í 4. sæti. Þá er Leicester með sjö stiga forskot á West Ham sem er í 5. sætinu en aðeins eru fimm leikir eftir í deildinni.
Leicester 2 – 1 Crystal Palace
0-1 Zaha (´12)
1-1 Castagne (´50)
2-1 Iheanacho (´80)