Talsverð pressa er að myndast á Glazer fjölskylduna að selja Manchester United en samkvæmt fréttum á Englandi eru þeir bræður ekki að íhuga það alvarlega.
Samkvæmt fréttum mun Glazer fjölskyldan aðeins skoða það að selja United ef aðili sem er klár í að borga 4 milljarða punda fyrir félagið.
Kröftug mótmæli áttu sér stað fyrir utan Old Trafford um helgina en ástæðan er Ofurdeildin sem félagið ætlaði að taka þátt í. Glazer fjölskyldan hefur lengi verið umdeild á meðal stuðningsmanna United.
Glazer fjölskyldan borgaði 790 milljónir punda fyrir United árið 2005, skuldir félagsins hafa verið háar á þessum tíma og þá hefur fjölskyldan tekið mikla fjármuni í eigin vasa.
Glazer fjölskyldan er mest búsett í Flórída og sést lítið í Manchester, búist er við að kröftug mótmæli haldi áfram næstu vikurnar.