Tottenham og Manchester City mættust í úrslitaleik enska deildarbikarsins í dag. Leiknum lauk með 1-0 sigri Manchester City en leikið var á þjóðarleikvangi Englendinga, Wembley í Lundúnum fyrir framan 8000 áhorfendur.
Tottenham gat með sigri bundið enda á 13 ára titlaleysi sitt en síðasti titillinn sem liðið vann var akkúrat í enska deildarbikarnum árið 2008.
Það var þó hins vegar Manchester City sem hreppti hnossið í dag. Eina mark leiksins kom á 82. mínútu, það skoraði Aymeric Laporte eftir stoðsendingu frá Kevin De Bruyne.
Manchester City er því enskur deildarbikarmeistari tímabilið 2020/2021 en þetta er í áttunda skiptið sem félagið vinnur keppnina.