Það var miðvörðurinn Aymeric Laporte, sem tryggði Manchester City, enska deildarbikarinn með marki í úrslitaleik keppninnar gegn Tottenham í dag.
Laporte segir að Manchester City sé hungrað í fleiri titla á tímabilinu og að liðið muni ekki hætta núna.
„Þetta er sérstakt fyrir okkur. Eftir að við féllum úr leik í enska bikarnum þurftum við að finna sjálfstraust og halda áfram. Síðustu tvo mánuði höfum við verið að spila mjög vel. Nú viljum við halda þessum takti og vinna fleiri titla,“ sagði Laporte eftir leik.
City var sterkari aðilinn í leiknum í dag en Laporte vissi að það yrði erfitt að brjóta vörn Tottenham á bak aftur.
„Þetta var erfitt í dag, Tottenham er með gott lið og þetta átti alltaf eftir að vera erfitt. Í dag gerðum við mjög vel,“ sagði Laporte í viðtali eftir leik en Manchester City átti sigurinn skilið enda betra liðið í dag.
8000 áhorfendur voru leyfðir á Wembley í dag og það gladdi Laporte.
„Við erum svo ánægðir með að fá stuðningsmenn okkar aftur á völlinn. Það hefði verið frábært ef fleiri hefðu geta mætt en við erum einnig þakklátir fyrir þeirra stuðning,“ sagði Aymeric Laporte, leikmaður Manchester City, eftir að liðið tryggði sér sigur í enska deildarbikarnum.