Harry Kane, framherji Tottenham, er í kapphlaupi við tímann upp á að ná sér heilum fyrir úrslitaleik enska deildabikarsins gegn Manchester City á sunnudag.
Kane meiddist á ökla gegn Everton fyrir viku. Hann missti svo af leik við Southampton í kjölfarið. Hann æfði ekki með liðinu í dag. Vonir höfðu verið bundnar við að hann gæti æft í dag miðað við fréttir í morgun.
Ryan Mason, sem stýrir Tottenham út tímabilið, sagði síðdegis í dag að óvissa væri með þátttöku Kane í leiknum á sunnudag.
,,Við vitum ekki ennþá (hvort að Kane geti spilað). Hann æfði ekki með liðinu í dag en við munum sjá betur á morgun hvort við getum ekki komið honum aftur á völlinn. Það þarf að taka þetta klukkustund fyrir klukkustund. Tíminn er að renna út,“ sagði Mason.
Tottenham getur með sigri í úrslitaleiknum unnið sinn fyrsta titil síðan 2008. Leikurinn fer fram klukkan 15:30 á sunnudag.