Edinson Cavani framherji Manchester United hefur tjáð Ole Gunnar Solskjær og forráðamönnum United að hann vilji burt frá félaginu í sumar. Frá þessu er greint í Suður-Ameríku.
United gæti framlengt samning hans um eitt ár en félagið vill ekki halda Cavani ef hann vill fara.
Cavani er á sínu fyrsta ári hjá United og hefur átt ágætis spretti þegar hann hefur verið heill heilsu, Cavani og fjölskylda vilja hins vegar halda til Suður-Ameríku.
Cavani er frá Úrúgvæ en hann er með tilboð frá Boca Juniors í Argentínu og hefur mikinn áhuga á að fara þangað. Boca liðið er vel mannað en þar má finna Carlos Tevez og Marcos Rojo fyrrum leikmenn United.
Cavani hefur tjáð forráðamönnum United að hann vilji fara en Cavani hefur átt frábæran feril í Evrópu, hann raðaði inn mörkum fyrir Napoli og síðan PSG áður en hann kom til Englands.