Marcel Brands yfirmaður knattspyrnumála hjá Everton hefur fengið nýjan þriggja ára samning hjá félaginu. Hann fær mikið lof fyrir starf sitt.
Brands tók við starfinu hjá Everton árið 2018 en hann stjórnar leikmannakaupum félagsins í samráði við stjórann hverju sinni. Hann er einnig í stjórn félagsins.
Brands hefur notið þess að vinna með Carlo Ancelotti og treystir Everton á að þessir tveir menn geti komið félaginu í hóp þeirra bestu. Everton hefur sett mikla fjármuni í leikmenn og vilja ná langt.
„Það hefur legið fyrir í nokkurn tíma að ég myndi setjast niður með Marcel og semja við hann,“ sagði Bill Kenwright stjórnarformaður félagsins.
„Hann er frábær í sínu starfi og á frábært samstarf við Carlo Ancelotti. Það er mikilvægt að hafa hann hérna næstu árin.“
Gylfi Þór Sigurðsson er í herbúðum Everton en samningur hans við félagið rennur út eftir rúmt ár, Brands gæti boðið honum lengri samning á næstu vikum.