Boris Johnson, forsætisráðherra Bretlands hefur lofað stuðningsmönnum fótboltans því að hann og ríkisstjórn hans muni koma í veg fyrir að ensk félög taki þátt í Ofurdeildinni. Frá þessu segir The Athletic.
Johnson fundaði með stuðningsmönnum fótboltans í dag þar sem hann á að hafa lofað þessu, hann sagði jafnframt að hann og ríkisstjórnin gætu bannað leikjum í Ofurdeildinin að fara fram á Bretlandi.
12 evrópsk stórlið á knattspyrnusviðinu tilkynntu seint á sunnudagskvöld að þau hafi tekið saman höndum um stofnun Ofurdeildar, The Super League. UEFA er alfarið á móti þessu og hótaði í gær að útiloka liðin og leikmenn þeirra frá þátttöku í öllum mótum á alþjóðasviðinu. Þá hafa knattspyrnusamböndin í Englandi, Spáni og á Ítalíu hótað að reka liðin úr deildarkeppnunum þar í landi. Markmiðið með deildinni er að til verði keppni þar sem 15 lið eiga alltaf fast sæti en árlega fái 5 önnur lið aðgang að keppninni.
Þessi nýja deild hefur mætt mikilli mótspyrnu en svo virðist sem félögin ætli að standa fast á sínu og hefja leik í deildinni sem allra fyrst.
Stofnfélög deildarinnar eru:
Arsenal
Chelsea
Liverpool
Manchester City
Manchester United
Tottenham
Atlético Madrid
Barcelona
Real Madrid
AC Milan
Inter Milan
Juventus.