Jurgen Klopp, knattspyrnustjóri Liverpool, segir að sín skoðun á Ofurdeildinni svokölluðu sem stendur til að setja á laggirnar, hafi ekki breyst síðan úr viðtali árið 2019.
Þá sagðist Klopp vera á móti Ofurdeildinni. Að hans mati er Meistaradeild Evrópu hin raunverulega ofurdeild. Hann dró það í efa að stuðningsmenn Liverpool myndu vilja sjá Liverpool keppa á móti Real Madrid tíu ár í röð. Fegurðin við Meistaradeild Evrópu væri að þú værir í sífellu að mæta nýjum liðum.
Í viðtali fyrir leik Liverpool og Leeds í ensku úrvalsdeildinni í kvöld, sagði Klopp að sín skoðun á Ofurdeildinni hefði ekki breyst.
„Þetta er erfitt, stuðningsmenn eru ekki ánægðir og ég skil það. Ég og leikmennirnir erum ekki hluti af þessu ferli,“ sagði Klopp í viðtali við BBC.
Liverpool er eitt af stofnfélögum Ofurdeildarinnar en svo virðist sem þjálfarateymi liðsins og leikmenn hafi ekki verið hafðir með í ráðum.
„Við fengum einhverjar upplýsingar en ekki mikið. Flest af því kom frá fjölmiðlum,“ sagði Klopp fyrir leik Liverpool og Leeds í kvöld.
Klopp er mikill aðdáandi Meistaradeildar Evrópu og segir það hafa verið draum sinn að stýra liði í keppninni.
„Ég er 53 ára. Síðan að ég hef verið þátttakandi atvinnumanna knattspyrnu hefur Meistaradeild Evrópu verið til staðar. Mitt markmið var alltaf að stýra liði þar og ég hef ekkert á móti Meistaradeild Evrópu eins og hún er núna.“
„Ég er hrifinn af því að West Ham eigi möguleika á að spila í keppninni á næsta tímabili. Ég vil ekki að þeir nái því vegna þess að við viljum það líka en ég er hrifinn af því að þeir eigi möguleika,“ sagði Klopp í viðtali við BBC.
Klopp vill ekki sjá gjá myndast á milli félagsins og stuðningsmanna Liverpool.
„Knattspyrnufélagið Liverpool er miklu stærra en einvher ein ákvörðun. Það mikilvægasta við fótboltann eru stuðningsmennirnir og liðið. Við þurfum að sjá til þess að ekkert komi upp á milli þeirra,“ sagði Jurgen Klopp, knattspyrnustjóri Liverpool, fyrir leik Liverpool og Leeds í ensku úrvalsdeildinni.