Jón Dagur Þorsteinsson kantmaður AGF í Danmörku vakti athygli um helgina þegar hann rauk af velli þegar David Nielsen þjálfari tók hann af velli.
AGF gerði 2-2 jafntefli við Bröndby í deild þeirra bestu í Danmörku í gær, Jón Dagur var í byrjunarliði AGF en var kippt af velli eftir tæpa klukkustund.
Kantmaðurinn knái var verulega óhress með þá ákvörðun Nielsen og rauk beint inn í klefa, hefð er fyrir því að menn setjist á bekkinn og horfi á restina af leiknum.
„Það er frábært að leikmenn séu reiðir þegar ég kippi þeim af velli, það bara gæti ekki verið betra,“ sagði Nielsen að leik loknum.
„Ég tel að hann hafi verið reiður yfir skiptingunni, ég sé hann bara rjúka inn.“
Jón Dagur hefur verið viðloðandi íslenska A-landsliðið undanfarin misseri en margir spá því að hann fái stórt hlutverk á næstu mánuðum.