UEFA hefur samþykkt og kynnt nýtt fyrirkomulag á Meistaradeild Evrópu, þetta gerir UEFA degi eftir að tólf stór félög kynntu nýja Ofurdeild.
Þau félög ætla að hætta í Meistaradeildinni en nú hefur UEFA samþykkt að fjölga liðum í Meistaradeild Evrópu frá og með 2024.
Í nýju fyrirkomulagi verður riðlakeppnin lögð niður en þess í stað verður tekið upp deildarfyrirkomulagi. Hvert lið mun leika tíu leiki gegn mismunandi liðum.
Liðin raðast svo í stöðutöflu og átta efstu liðin fara beint í útsláttarkeppni. Næstu sextán lið í deildinni fara í umspil um önnur átta sæti.
Síðan þá hefjast 16 liða úrslitin og venjulegt útsláttarfyrirkomulag verður notað. Tvö félög sem fá þátttökurétt í þessu nýja fyrirkomulagi fá úthlutað sæti frá fyrri árangri í keppninni, þannig geta lið sem eiga eitt hræðilegt tímabil fengið verðlaun fyrir fyrri árangur.
Ofurdeildin:
12 evrópsk stórlið á knattspyrnusviðinu tilkynntu seint í gærkvöldi að þau hafi tekið saman höndum um stofnun Ofurdeildar, The Super League. UEFA er alfarið á móti þessu og hótaði í gær að útiloka liðin og leikmenn þeirra frá þátttöku í öllum mótum á alþjóðasviðinu. Þá hafa knattspyrnusamböndin í Englandi, Spáni og á Ítalíu hótað að reka liðin úr deildarkeppnunum þar í landi. Markmiðið með deildinni er að til verði keppni þar sem 15 lið eiga alltaf fast sæti en árlega fái 5 önnur lið aðgang að keppninni.
Stofnfélög deildarinnar eru:
Arsenal
Chelsea
Liverpool
Manchester City
Manchester United
Tottenham
Atlético Madrid
Barcelona
Real Madrid
AC Milan
Inter Milan
Juventus.