Mikel Arteta, Stjóri Arsenal, gæti misst starfið sitt ef honum tekst ekki að vinna Evrópudeildina í vor. Þetta segir Darren Bent, fyrrum leikmaður Tottenham, Aston Villa og fleiri liða.
Arsenal hefur átt slæmt tímabil í ensku úrvalsdeildinni, eru í 9.sæti þegar sjö leikir eru eftir. Þá féllu þeir úr leik í enska bikarnum í 32-liða úrslitum. Það verður ansi erfitt fyrir þá að komast í Evrópukeppni í gegnum deildina á þessu tímabili. Þeir eru þó í 8-liða úrslitum Evrópudeildarinnar. Sigur í þeirri keppni veitir þátttökurétt í Meistaradeild Evrópu á næsta tímabili. Það er því til mjög mikils að vinna fyrir Arteta og hans menn.
Stjórinn vann enska bikarinn með liðinu í fyrra, á sínu fyrsta tímabili. Bent telur það að einhverju leiti hafa varpað skugga á stöðu liðsins sem endaði í 8.sæti deildarinnar sama ár.
,,Sigurinn í bikarnum fyllir í margar sprungur. Ef Arsenal fellur úr leik í Evrópudeildinni og endar í 10. -eða 11.sæti í deildinni þá held ég að hann gæti verið rekinn,“ sagði Bent við talkSport.
Þá er þessi fyrrum leikmaður einnig á þeirri skoðun að Arsenal hefði frekar átt að ráða Carlo Ancelotti til starfa á sínum tíma, frekar en Arteta. Báðir stjórarnir fóru í ný félög á svipuðum tíma. Ancelotti fór til Everton.
,,Mér finnst að Ancelotti hefði átt að fara til Arsenal og Arteta til Everton.“
Arsenal mætir Slavia Prag í seinni leik liðanna í 8-liða úrslitum Evrópudeildarinnar á fimmtudag. Fyrri leikurinn fór 1-1 á heimavelli skyttanna.