Fyrri leikir 8-liða úrslita Evrópudeildarinnar fóru fram í kvöld. Manchester United vann sinn leik og Arsenal gerði jafntefli gegn Slavia Prag. Roma vann Ajax og lærisveinar Unai Emery hjá Villarreal höfðu betur gegn Dinamo Zagreb.
Á Spáni tóku heimamenn í Granada á móti Manchester United. Marcus Rashford kom Manchester United yfir með marki á 31. mínútu eftir stoðsendingu frá Victor Lindelöf. Það var síðan Bruno Fernandes sem innsiglaði 2-0 sigur Manchester United með marki úr vítaspyrnu á 90. mínútu.
Á Emirates Stadium í Lundúnum tók Arsenal á móti Slavia Prag frá Tékklandi. Fyrsta mark leiksins kom á 86. mínútu, það skoraði Nicolas Pepe eftir stoðsendingu frá Pierre Emerick Aubameyang. Gestirnir í Slavía Prag náðu hins vegar inn mikilvægu útivallarmarki á fjórðu mínútu uppbótartíma venjulegs leiktíma. Markið skoraði Tomas Holes. Leikurinn endaði með 1-1 jafntefli.
Í Hollandi tók Ajax á móti Roma. Davy Klaasen kom Ajax yfir með marki á 39. mínútu eftir stoðsendingu frá Dusan Tadic. Þannig stóðu leikar allt þar til á 57. mínútu þegar að Lorenzo Pellegrini jafnaði metin fyrir Roma. Það var síðan Ibanez sem tryggði Roma sterkan 2-1 útivallarsigur með marki á 87. mínútu.
Á Maximir vellinum í Króatíu tóku heimamenn í Dinamo Zagreb á móti Villarreal. Gerard Moreno kom Villarreal yfir með marki út vítaspyrnu á 44. mínútu. Þetta reyndist eina mark leiksins og fór Villarreal því með 1-0 útisigur af hólmi.
Seinni leikir 8-liða úrslita Evrópudeildarinnar fara fram þann 15. apríl næstkomandi.