Eric Dier, leikmaður enska liðsins Tottenham, hefur verið hjá félaginu síðan árið 2014.
Dier á að baki 271 leik fyrir félagið, hann hefur skorað 11 mörk í þeim leikjum og gefið 11 stoðsendingar.
Það er alveg ljóst á orðum Dier að ást hans á Tottenham nær út fyrir lífið sjálft. Varnarmaðurinn var í viðtali hjá Evening Standard á dögunum.
„Ég myndi vilja láta dreifa ösku minni á Tottenham Hotspur vellinum,“ sagði hann í viðtalinu er hann var spurður út í ást sína á félaginu.
Dier gekk til liðs við Tottenham frá portúgalska liðinu Sporting Lisbon á sínum tíma og hann er ekki á förum. Dier skrifaði undir nýjan fjögurra ára samning við Tottenham síðasta sumar.