Hörður Björgvin Magnússon leikmaður Íslands og CSKA Moskvu er á leið í aðgerð eftir að hafa slitið hásin í Rússlandi um helgina. Allt stefnir í að Hörður verði fjarverandi í hálft ár.
„Ég flýg til Finnlands á morgun og fer í aðgerð á föstudag. Síðan kem ég bara aftur til Moskvu og verð í 2-3 vikur þar áður en ég kem svo til Íslands í sumarfrí,“ segir Hörður í viðtali við RÚV.
Hörður mun missa af endrapsetti úrvalsdeildarinnar í Rússlandi og af landsleikjum Íslands í sumar. Hann vonast til að geta verið klár í slaginn í september þegar Ísland heldur áfram með undankeppni HM, það verður þó tæpt.
„Ég held að menn tali alltaf um allavega sex mánaða bataferli. En svo eru auðvitað dæmi um fólk sem hefur jafnað sig á skemmri tíma. Vonandi verð ég bara í þeim hópi, þannig ég verði klár í slaginn aftur í september,“ sagði Hörður við RÚV.
Hörður byrjaði tvo af þremur landsleikjum Íslands í mars og lagði upp eitt marka Íslands í sigri á Liechtenstein.