Joachim Watzke stjórnarformaður Borussia Dortmund segir að Jadon Sancho kantmaður félagisns sé til sölu í sumar ef rétta tilboðið kemur á borð þeirra.
Dortmund neitaði að selja Sancho síðasta sumar en félagið heimtaði þá um 120 milljónir punda sem enginn vildi borga. Manchester United hafði þá áhuga.
Líklegt er talið að Sancho fari í sumar en hann hefur viljað snúa aftur heim til Englands, Dortmund þarf líka fjármuni í sumar. Félaigð hefur fundið fyrir áhrifum kórónuveirunnar og þá er félagið ekki öruggt með sæti í Meistaradeild Evrópu að ári.
„Jadon Sancho hefur verið miklu lengur hjá okkur en Erling Haaland, við ræðum við Jadon,“ sagði Watzke um stöðu mála.
„Ef það kemur gott tilboð þá erum við tilbúnir að ræða við Sancho og umboðsmann hans. Ég er öruggur á því að félagaskiptamarkaðurinn verður rólegri í sumar en oft áður.“
„Veruleikinn fyrir stór félög er sá að kórónuveiran hefur haft veruleg áhrif, það lagast ekki á viku eða tveim.“