Pep Guardiola, knattspyrnustjóri Manchester City, er óánægður með það leikjaálag sem leikmenn þurfa að glíma við þessa dagana.
Manchester City er enn þátttakandi í fjórum keppnum og ofan á það bætast síðan leikir með landsliðum. Guardiola lét skoðun sína í ljós á fréttamannfundi.
„UEFA og FIFA eru að drepa leikmenn, þetta er of mikið af leikjum. Við höfum ekki átt frídag í miðri viku síðan að við hófum leiktíðina. Þetta eru manneskjur ekki vélmenni,“ sagði Guardiola.
Guardiola segist vegna leikjálags þurfa að gera fjölmargar breytingar á liði sínu fyrir hvern leik.
„Ástæðan fyrir því að ég geri sex eða sjö breytingar fyrir hvern einn og einasta leik er vegna þess að allir leikmenn eru í standi til þess vegna þess að við erum með einstakan leikmannahóp. Ég leyfi þeim ekki að spila eins mikið og þeir geta,“ sagði Guardiola, knattspyrnustjóri Manchester City.